Gilli mælir með: 10 bækur sem þú verður að lesa

Ég trúi því innilega að continuous learning/life-long learning sé algjör lykill að velgengni í lífinu, hvort sem það er fyrir þig persónulega eða rekstur/starfsferil. Ef þú setur þér það markmið að vera alltaf að læra eitthvað nýtt tengdu þínu fagi er nánast óhjákvæmilegt að þú munir ná langt (lesist: verða best/ur í því sem þú leggur þér fyrir hendur).

Bækur eru ótrúleg tól (öflugt, aðgengilegt, ódýrt) til þess að gera þetta og með því að lesa getur þú skyggnst inn í huga fremstu eintaklinga heims á hverju sviði – sem eru bókstaflega að deila sinni uppskrift að þeirra velgengni í gegnum sögur og lexíur sem þeir hafa lært á lífsleiðinni. Ég les fyrst og fremst til þess að læra nýja hluti og fá innblástur fyrir Wake Up, Gorilla eða önnur ný og spennandi verkefni.

Þessi bloggfærsla er orðin rosalega tímabær og ef mig minnir rétt setti ég upp fyrsta draft fyrir meira en ári síðan – enda hef ég alltaf viljað deila ráðleggingum og gera það sem ég get til þess að aðstoða aðra sem hafa áhuga á því að bæta sig, ná lengra og/eða fara í eigin rekstur. Það sem ýtti mér af stað núna er að meðmæli um bækur er orðin algengasta spurningin sem ég fæ í gegnum Instagram. Og vegna þess að ég vil virkilega hjálpa og gefa vel ígrunduð svör – þá hef ég verið lengi að svara og skulda nokkrum vel völdum þessi mæðmæli … svo þessi listi er fyrir ykkur!

Egill Halldorsson Bækur sem ég mæli með Egill Tyrkland

Ég hef lesið sirka 40-50 business / self-development bækur á síðustu tveimur árum og hér fyrir neðan eru örfáar sem eru mér ofarlega í huga. Flestar þessara bóka hef ég lesið 2-3x að minnsta kosti. Allar bækurnar hér fyrir neðan eru líka tiltölulega léttar og skemmtilegar en ekki 700 bls þungavigtar-rumar. Sumar bækur kaupi ég og actually les en flestar hlusta ég á og mæli ég mjög mikið með hljóðbókaáskrift hjá Audible.com. Það kostar klink á mánuði og þú getur valið þér nýjan titil mánaðarlega. Ég keyri aldrei einn án þess að hlusta á bók auk þess sem ég “les” þegar ég hjóla, fer í göngutúra með bellu, tek til heima, ligg í sólbaði og svo framvegis.

Þetta eru eftirlætis bækurnar mínar. Þeir titlar sem náðu mest til mín – höfðu mikil áhrif á mig persónulega og ég mæli með til allra vina minna. Vonandi hjálpa þær þér líka! Bækurnar eru ekki í neinni sérstakri röð.

The Magic of Thinking Big

eftir David Schwartz

Magic of Thinking Big er fyrsta bókin sem ég hlustaði á og eftir hana var ekki aftur snúið. Þetta er líklegast sú bók sem ég hef hlustað á oftast og lengi vel var ég alltaf með hana í gangi áður en ég fór á mikilvæga fundi, hélt fyrirlestur eða fyrir stóran túr með Wake Up – til þess að koma mér í rétta gírinn. Ég myndi ekki flokka MOTB sem business bók en frekar sem life changing self development skóla.  Mér finnst líklegt að þér eigi eftir að finnast margt í þessari bók vera sjálfsagður hlutur en jákvæðnin og viðhorfið á lífið sem höfundurinn predikar er ómetanlegt.

Ég segi við alla að ef þú virkilega hlustar og notar þær rosalega einföldu reglur sem eru kenndar í þessari bók þá á lífið þitt eftir að breytast á alveg ótrúlegan hátt.

Magic of Thinking Big er 9,5 klst í hlustun.

No Excuses: The Power of Self Discipline

eftir Brian Tracy

Það er viðeigandi að hafa Magic of Thinking Big og No Excuses hér hlið við hlið – og efst á listanum mínum. No Excuses er önnur bók sem ég hef hlustað á gjörsamlega endalaust og mun halda áfram að gera. No Excuses er að einhverju leiti eins og bókin hér að ofan, self-development frekar en hörð business, peninga eða marketing umræða en hún er töluvert meira að fókusa á business/starfsframa þó ráðin í bókinni gildi fyrir bæði business og hversdagslíf.

Brian Tracy er algjör snillingur í að búa til aðferðir sem leiða alveg svart á hvítu til algjörs hámarks árangurs – en eru svo ótrúlega einfaldar að þú hefur enga afsökun fyrir því að gera ekki allt sem hann segir. Ég mæli rosalega mikið með því að lesa/hlusta á bókina en líka að þú gefir þér tíma til þess að raunverulega gera æfingarnar/skrifa niður markmiðin þín og taka þátt.

Þekking ein og sér kemur okkur nefninlega ekki neitt. En þegar þú ert alltaf að læra eitthvað nýtt og virkilega gefur þér tíma til þess að stoppa, hugsa hvernig þessar reglur eiga við fyrir þig, hvernig þú getur notað þær – skrifað niður markmið / hugmyndir og svo framvegis. Og þegar þú hrindir nýju hugmyndunum þínum í framkvæmd – þá breytist allt. Allir eiga að lesa þessa bók.

No Excuses er uþb. 7 klst í hlustun.

Rich Dad Poor Dad

eftir Robert T. Kiyosaki

Ríki pabbi, fátæki pabbi er alveg mögnuð fjármálalæsisbók – og kennir okkur hvernig á að hugsa um peninga. Það sem gerir bókina svona frábæra er að hún er skrifuð í alveg fáránlega einföldu og læsilegu máli svo það er rosalega skemmtilegt að lesa í gegnum hana og upplýsingarnar komast rosalega vel til skila.

Bókin er í raun fjármála/peningabók í bland við ævisögu en Robert T. Kiyosaki segir frá uppeldisárum sínum og hvernig hann var alinn upp af tveimur pöbbum – annar ríkur og hinn fátækur – og varpar ljósi á það hvernig áherslurnar voru öðruvísi og vegur kosti og galla beggja megin.

Þessa bók eiga allir að lesa og ég hef meira að segja verið að hugsa um að fá litla bróðir minn til þess að lesa í gegnum hana því mig minnir að hún sé svo rosalega einföld að börn/unglingar ættu alveg að geta tekið mikið frá henni. Á þeim nótum þá veit ég að hún hefur verið þýdd yfir á Íslensku!

Rich Dad, Poor Dad er uþb. 6 klst í hlustun.

How to Win Friends and Influence People

eftir Dale Carnegie

How to Win Friends and Influence People er enn önnur meistarasmíð og eitthvað sem ég mæli með fyrir alla að lesa. Það er eiginlega korter í furðulegt hvað ég er að peppa allar þessar bækur mikið en Magic of Thinking Big, No Excuses og síðan How to Win Friends and Influence People eru þannig séð allar í sama flokki. Þetta eru allt snilldar bækur sem fókusa kannski fyrst og fremst á það hvernig þú horfir á heiminn, mannleg samskipti og markmiðasetningu.

Dale Carnegie er náttúrulega king of mannleg samskipti og þessi bók fjallar í raun eins og titilinn gefur til kynna – um það hvernig getur þú látið alla líka vel við þig og haft áhrif á fólk. Þetta á þess vegna alveg jafnt við í personal development og business. Ég þarf kannski ekkert að útskýra það en það hvernig fólki líkar við þig skiptir endalausu máli á öllum hliðum lífs okkar og það að hafa áhrif á fólk er sömuleiðis einn af okkar dýrmætustu hæfileikum, hvort sem það er að fá börnin okkar til þess velja rétt eða loka stórum viðskiptasamningum.

Það er eitt alveg virkilega athyglisvert við þessa bók og það er að hún var skrifuð af Dale Caregie fyrir næstum því 100 árum síðan! Ég hef hlustað á þessa bók 3-4 sinnum og það var ekki fyrr en núna í síðasta skiptið að ég kveikti á og áttaði mig á því hvað það er merkilegt – og hvað allar þessar upplýsingar ættu að vera löngu úreltar. En ég hef lesið margar bækur um “mannleg samskipti” eða eitthvað á þessum nótum og þessi bók er alveg sú lang besta enn þann dag í dag.

How to Win Friends and Influence People er 7 klst í hlustun.

4 Hour Work-Week

eftir Tim Ferris

Ég tók 4 Hour Work-Week með mér til Mexíkó í Apríl ’18 og gjörsamlega pakkaði henni saman – mikið til á kostnað Tönju sem fékk enga athygli frá mér á meðan! Mér fannst þessi bók algjörlega frábær og hún er meðal annars mikill innblástur fyrir Gorilla House sem við Daníel stofnuðum eiginlega bara um leið og ég kom heim.

4 Hour Work-Week er svolítið öðruvísi en flestar bækurnar á listanum mínum því hún er svolítið sérhæfð. Hún fjallar í raun fyrst og fremst um að automate’a – eða að gera allt á eins auðveldan eða sjálfkrafa hátt og mögulegt er. Og um mikilvægi þess að lifa lífinu – að elta draumanna okkar í dag, frekar en að bíða alltaf eftir “fullkomna tækifærinu” sem kemur aldrei.

Beinagrindin í kringum bókina er sú að Tim Ferris segir frá ævintýrum sínum þar sem hann setti “lífið á ís” og fór að ferðast um heiminn og einbeita sér að því að njóta lífsins til hins ítrasta og gera vinnuna sína eins sjálfvirka og hægt er á meðan – þar sem á endanum þurfti hann aðeins að vinna 4 klukkustundir á viku. Það er klárlega virkilega ýkt dæmi en pælingarnar hans eru alveg frábærar.  Hann segir svolítið sína sögu á sama tíma og hann deilir með okkur uppskriftinni sinni eða þeim lexíum sem hann lærði á leiðinni.

Mér fannst þessi bók alveg frábær og hún er virkilega mikill innblástur fyrir mig – þar sem okkur Tönju hefur alltaf dreymt um að flytja út og halda áfram að reka fyrirtækin okkar á internetinu (og með því frábæra fólki sem við erum með heima!). Ég mæli með þessari bók ef þú ert a) að hugsa um að stofna netverslun eða b) ef þig langar að ferðast meira!

4 Hour Work-Week er ekki á Audible. Hún er talsvert stór og mikil en mjög skemmtileg / einföld í lestri.

Purple Cow

eftir Seth Godin

Rooosalega flott marketing bók. Ég hef lesið margar bækur um markaðssetningu, vörumerkjaþróun eða fyrirtækjamenningu – en þessi er mín uppáhalds. Í stað þess að fjalla um markaðsherferðir eins og almennt er gert predikar Seth Godin að við eigum að búa til vörur/vörumerki sem eru svo ótrúlega sérstakar að varan auglýsir sig í rauninni sjálf.

Ég mæli rosalega mikið að þú kynnir þér þessa bók ef þú hefur áhuga á marketing eða ert að byggja upp vörumerki.

PS. Ég heyrði einhversstaðar að Skúli okkar Mogensen hefði notað þessa bók alveg frá A-Ö sem blueprint til þess að búa til Wow Air. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en með það í huga þá gengur það alveg fullkomlega upp. Wow er vörumerkið er náttúrulega alveg ótrúlega töff og bæði útlitið og það sem félagið hefur gert passar algjörlega við Purple Cow hugmyndafræðina.

Purple Cow er 3 klst í hlustun.

Rework

eftir Jason Fried & David Heinemeier

Þessari bók mæli ég alltaf með fyrir alla sem eru að fara af stað í eigin rekstur – eða jafnvel þá sem langar það ótrúlega mikið en eru ekki byrjaðir.

Ég las þessa bók fyrst fyrir mörgum árum síðan þegar Wake Up Reykjavik var ennþá bara í barnaskónum og þá tengdi ég alveg ótrúlega mikið – og fannst mjög hjálpleg. Rework fer í saumanna á því hvernig það er að reka fyrirtæki og ýmislegt sem þarf að gera. Sérstaklega fókusa þeir á að hlutirnir þurfi alls ekki að vera flóknir eða dýrir og leiðbeina okkur hvernig við getum gert hlutina á sem árángursríkastan eða skynsamastan hátt. Mjög kúl bók, hún er líka mjög lítil og nett svo það tekur ekki langan tíma að strauja í gegnum hana.

Rework er 3 klst í hlustun.

Eat That Frog og/eða Bull’s Eye: The Power of Focus

báðar eftir Brian Tracy

Mig langaði að hafa einhverja FÓKUS / tímastjórnunarbók hérna inni og ég man að ég var mjög hrifinn af þessum báðum. Ég sagði sjálfur í viðtali einhverntíman að ef ég gæti valið mér einn ofurkraft þá væri það líklegast að geta átt fleiri klukkustundir í sólarhringnum! Við getum nefninlega ekki stjórnað gangi tímans en við getum stjórnað hvernig við eyðum tímanum okkar – og það er næstum því það sama.

Báðar þessar bækur eru rosalega flottar og sniðugar tímastjórnunarbækur. Þú getur runnið í gegnum þær í einum grænum og notað þær til þess að skipuleggja þig miklu betur, koma miklu fleiru í verk og kannski aðallega – sjá til þess að þú framkvæmir það sem er mikilvægast hverju sinni (og hefur best áhrif á langtíma markmiðin þín).

Fleiri sniðugar bækur á svipuðum nótum eru The One Thing með Jay Papasan og The Power of Now með Eckhart Tolle.

Þessar bækur eru báðar mjög stuttar, 2-3 klst. hlustun. Tilvalið í einn göngutúr!

Screw It, Let’s Do It

eftir Richard Branson

Ef ég ætti að nefna einhvern einn einstakling sem ég lít meira upp til en nokkurs annars þá er það líklega þessi töffari, Richard Branson. Það er líklega enginn svalari. Hann er nefninlega ekki bara einn af ríkustu mönnum í heimi heldur er jákvæðnin og attitúdið í þessum gæja alveg ólíkt öllu öðru. Það er rosalega hvetjandi og inspiring að fylgjast með honum.

Richard Branson hefur skrifað fullt af bókum um ævintýrin sín í bæði skrautlegu einkalífi og viðskiptum en þessi þykir mér persónulega lang best.

Í Screw It, Let’s Do It blandar hann saman einhverskonar ævisögu og fullt af lexíum í einn mjög skemmtilegan kokteil. Hann leiðir mann eiginlega bara í gegnum þau ævintýr og áskoranir sem hann hefur glímt við og í gegnum hans reynslu er hæg tað taka mikinn lærdóm – og sækja innblástur.

PS. Richard Branson er metinn á fimm milljarða dollara og er gjarnan í hópi ríkustu einstaklinga í heimi. En á meðan allir aðrir á topplistum yfir ríkasta fólk í heimi sækja auðæfi sín í eitt fyrirtæki (Amazon, Apple, Microsoft, etc.) þá á Richard Branson / fyrirtæki hans Virgin Group 400 fyrirtæki á heimsmælikvarða og 4 sem eru metin á yfir milljarð Bandaríkjadollara. Fyrirtæki hans eru flugfélög, lestarkerfi, símfyrirtæki, geimflaugafélag, líkamsræktarstöðvar, hótel og allt þar á milli.

Screw It, Let’s Do It er 6,5 klst í hlustun.

Shoe Dog

eftir Phil Knight

Sjálfsævisaga Phil Knight, stofnanda Nike er alveg hreint mögnuð og ég hef líklegast aldrei verið jafn límdur við eina bók.

Shoe Dog er örugglega best skrifaðasta bókin á þessum lista og sagan er bara alveg geggjuð. Það er eiginlega ekkert annað hægt að segja. Hún fylgir Phil frá því að hann er unglingur með stóra drauma án þess að vita nákvæmlega hvað hann vill gera eða hvernig. Og að mínu mati er greint eiginlega bara frá öllu í talsvert miklum smáatriðum, allt frá hugmyndinni að Nike og þangað til félagið er orðið eitt af stærstu fyrirtækjum í heimi.

Þetta er rooosalega flott innsýn í það hvernig svona stórt vörumerki verður til og ætti að vera skyldulesning fyrir alla sem eru í retail til dæmis.

Á þessum nótum ætla ég líka að pota inn meðmæli fyrir bók sem heitir Elon Musk: Tesla, SpaceX and the Quest for a Fantastic Future eftir Ashlee Vange. Ólík Shoe Dog á rosalega margan hátt en að sama skapi, þá er alveg geggjað að skyggnast inn í huga einhvers klárasta manns okkar tíma. Mjög góð bók – og þú verður svo mikið á Teslu vagninum eftir þessa lesningu – rétt eins og Nike hjartað stækkar töluvert við Shoe Dog …

Shoe Dog er 13,5 klst í hlustun.

Svo eru auðvitað margar, margar rosalega góðar bækur sem ég setti ekki á listann af því að ég vildi ekki hafa þetta lengra – en þar á meðal eru margar mjög verðlaunaðar og þekktar “þungavigtarbækur” sem eru magnaðar en ég kannski var ekki að elska persónulega. Þær eru meðal annars Think and Grow Rich með Napoleon Hill, 7 Habits of Highly Effective People með Stephen Covey, Money: Master the Game með Tony Robbins og fleiri.

En, jæja! Ég vona að þessi ágæti listi muni hjálpa þér að taka þín mál – hvort sem það er personal growth eða starfsframinn þinn – upp á næsta pall. Eins og ég sagði hér að ofan, þá trúi ég því innilega að sá sem les bækur eins og þessar og virkilega meðtekur upplýsingarnar og einbeitir sér að því að beita þeim aðferðum sem eru kenndar – þá mun líf viðkomandi taka miklum breytingum á ófyrirséðan hátt. Og ég vona að það eigi við þig jafn vel og mig.

Síðast en ekki síst, þá þætti mér súper skemmtilegt og vænt um að heyra feedback frá þér – ef þú ert að lesa, valdir þér bók á þessum lista til dæmis eða ef þig langar bara að vera í bandi. Hvort sem það er í commenti hér fyrir neðan eða ef þú sendir mér línu hér eða á Instagram.

Happy reading og gangi þér vel!

Comments

comments

shares