Svona skipulegg ég ferðalögin mín!

Hvernig á að skipuleggja frí til útlanda? Hvar finnur þú ódýr flug og gistingu? Og hvernig getur þú kynnt þér aðstæður (verð, veður o.s.frv.) áður en þú kemur á sjálfan áfangastaðinn? Í þessari færslu ætla ég að fara yfir nákvæmlega þetta og allt það sem ég þegar ég skipulegg ferðalögin mín til útlanda!

HEY! Ég ákvað að splæsa í þessa færslu á íslensku, svo vonandi að það nýtist aðeins fleirum í kringum mig 🙂

Ég gjörsamlega elska að ferðast um heiminn okkar og ég reyni að gera eins mikið af því og ég mögulega get. Yfirleitt reyni ég að stútera næsta áfangastað í döðlur áður en ég bóka nokkurn skapaðan hlut og ég ætla að sýna ykkur hvernig ég geri það hér fyrir neðan. Sömuleiðis elska ég að ferðast ódýrt – Eða að minnsta kosti reyni ég að hafa góða yfirsýn það hvað flug, hótel og það að lifa á viðkomandi áfangastað kostar áður en ég byrja að bóka til að passa að ég borgi allavega ekki of mikið og það hjálpar mér líka að velja hvert mig langar til þess að fara.


HVERT Á AÐ FARA?

Erg Chebbi eyðimörkin í Morokkó

Í lang flestum tilfellum byrja ég á því að nota GO lausnina hjá íslensku bókunarvélinni DoHop til þess að sækja innblástur fyrir næsta ferðalag. Þar get ég valið á hvaða tímabili ég hef í huga að ferðast á (hægt að velja nákvæma dagsetningu eða mánuð, árstíð eða einfaldlega allt árið) og hvað ég hef langt frí í huga. Þá gefur leitarvélin mér upp öll flug, fram og til baka, frá Keflavíkurflugvelli á þessu tímabili og þeim hefur verið raðað með ódýrustu mögulegu ferðunum efst. Þar er hægt að skrolla í gegn fullt af flugum á súper einfaldan máta og þú ert viss um að finna ódýrasta verðið.

Það er líka hægt að skoða ódýrustu flugin aðeins aðra leið ef það er sérstaklega valið. Þá er stundum hægt að finna enn betri díla en það hentar auðvitað ekki fyrir öll ferðalög. Það er sérstaklega sniðugt ef þú ætlar aðra leið heim, enn lengra út í heim eða ef þú ætlar bara ekkert heim yfir höfuð auðvitað!

Tvö tips:

#1 – Dohop GO virkar lang best ef þú ert EKKI með nákvæma dagsetningu eða áfangastað í huga. Ef þú ert einungis að leita þér að fríi til Kanarí eyja og akkúrat yfir páskanna, þá eru möguleikarnir ekki margir og líklegast nákvæmlega þeir sömu og þú finnur á WowAir.is til dæmis. En ef þú ert endalaust sveigjanleg/ur eins og ég reyni yfirleitt að vera þegar ég skoða ferðalög, þá getur þú valið að skoða alla möguleika næstu 12 mánuði og hvert sem er í heiminum – Og þá rambar þú oft á rosalega sniðug flug og góð verð.

#2 – Það sem ég geri oft til að fá fleiri og enn meira spennandi möguleika er að í staðin fyrir að skoða flug frá Keflavík, þá vel ég að skoða flug frá London, Kaupmannahöfn, París eða Amsterdam til dæmis. Hugmyndin er að það eru aðeins X margir áfangastaðir í boði beint frá Íslandi en þú getur fundið hræódýr flug til einhverra af áfangastaðanna sem ég tali upp hér að ofan – og svo hoppað á meira exotic staði þaðan. Það var til dæmis með þessari aðferð að okkur Tönju datt í hug að heimsækja Morocco í fyrsta skiptið 2016 og þá borguðum við minnir mig innan við 25 þúsund krónur fyrir flug frá Íslandi til London og þaðan til Norður Afríku!

PS. Nýlega er ég líka farinn að fylgjast með allskonar ferðaperra prófílum og ferðabloggurum á Instagram. Þannig er oft hægt að sækja skemmtilegan innblástur líka! Til dæmis @BeautifulDestinations, @DoYouTravel og fleiri! 


Hvað kostar að lifa á viðkomandi áfangastað?

– Annar súper mikilvægur þáttur til að skoða, ÁÐUR en ég bóka flug.

Top of the Hub veitingahúsið í Boston

Hér er eitt sem mér finnst alveg rosalega, rosalega mikilvægt og eiginlega bara skemmtilegt. Og þetta geri ég alltaf alveg í byrjun þegar ég er að skoða nýjan áfangastað. Það að finna frábæran díl á flugi skiptir nefninlega ekki alltaf öllu. En það er að rannsaka hvað það kostar að lifa á viðkomandi áfangastað!

Hvað kostar að fara út að borða? Hvað kostar bjór? Hótel? Leigubíll? Gallabuxur, stuttermabolir peysur og svo mætti lengi telja. Fyrir þetta þá nota ég Cost Of Living tólið frá Numbeo.

Þú getur fundið dæmið þeirra hér: Cost of Living. 

Hér get ég borið saman tvo áfangastaði sem eru venjulega í mínu tilfelli Reykjavík og áfangastaðurinn sem ég ætla hugsanlega að heimsækja. Þá gefur tólið mér upp nákvæman samanburð á verðinu í Reykjavík og áfangastaðnum sem ég valdi. Allt frá veitingastöðum og verslunum og upp í leiguverð eða kaupmátt íbúa á þessum áfangastað. Þetta getur hjálpað mér ótrúlega mikið við að velja næsta frí vegna þess að hér get ég séð hvar ég fæ mest fyrir peningana mína.

Til dæmis get ég oft fundið flug til Sviss fyrir 6.000 krónur íslenskar – En á Numbeo sé ég að Sviss er eitt af fáum löndum í heiminum þar sem matur og bjór kostar jafn mikið og oft meira en hér heima á Íslandi. Sem sagt, það er ódýrt að ferðast til Sviss en rándýrt að vera þar. Á sama hátt get ég séð að matur og bjór er um það bil 70% ódýrari í Morokkó en á Íslandi … og það gerir Morokkó og fleiri áfangastaði strax töluvert meira sexý en Sviss!

Cost of Living vélin uppfærist venjulega í hverjum mánuði og hún tekur mið af því hvernig gengið á mismunandi gjaldmiðlum breytist. Og það spilar auðvitað rosalega inn í ferðalög hjá okkur Íslendingum akkúrat núna. Þar sem það er auðvitað mun skemmtilegara að ferðast þegar við fáum meiri gjaldeyri fyrir Íslensku krónurnar okkar.


Hvar á að gista?

Stracta Hótel á Hellu

Þegar ég er búinn að ákveða áfangastað er næsta mál á dagskrá að finna hvar og hvernig ég vil gista. Og fyrir mér skiptir venjulega meira máli nákvæmlega hvar ég vil vera staðsettur, en gistingin sjálf.

Hér byrja ég venjulega á því að gúggla af mér rassgatið og skoða kort, blogg og opinberar heimasíður en oftast finnst mér bloggsíður vera hjálplegastar í þessum efnum. Í stuttum borgarferðum til dæmis vil ég vera eins mikið í hjarta borgarinnar og hægt er til þess að spara tíma og peninga í ferðamáta niður í miðbæ en þá skiptir líka máli að finna þann kjarna borgarinnar sem ég vil vera í – Þar sem flestar borgir eru örlítið flóknari en Reykjavík þar sem við höfum einfaldlega eina götu sem er miðbærinn.

Til þess að finna gistingu nota ég persónulega alltaf hótelleitarvélina Booking.com. Þú getur smellt á linkinn til að skoða eða prófað formið hér fyrir neðan!Booking.com

Booking.com er líklegast stærsta hótel leitarvélin sem í boði er og ég nota hana vegna þess að þar finnst mér ég finna besta úrvalið af gististöðum og þar er ég vanur að finna besta verðið. Ég hef notað þessa vél og bókað fleiri en 30 hótel á síðustu árum og alltaf verið mjög ánægður.

Auk þess hefur AirBnb auðvitað verið grimmt mikið í umræðunni hér á Íslandi undanfarið. Við Tanja erum í þessum töluðu orðum að skipuleggja ferð til Ítalíu í sumar og þar erum við í fyrsta skiptið búin að bóka nokkrar gistingar í gegnum AirBnb. Það væri því fullsnemmt fyrir mig að byrja mæla með því en hér er að minnsta kosti það sem ég veit:

#1 – Á AirBnb gistir þú ekki á hótelum heldur er yfirleitt um íbúðir eða herbergi að ræða sem heimafólk á og leigir út.
#2 – Samkvæmt minni reynslu er þetta eiginlega alltaf ódýrara en að gista á hóteli. Sérstaklega ef þú ert að ferðast með hópi og þið getið deilt kostnaðinum á heilli íbúð eða húsi.
#3 –  Á AirBnb kemstu strax í samband við manneskjuna sem á íbúðina. Oftar en ekki er þetta fólk sem þekkir borgina/bæinn sinn vel og er meira en tilbúið að hjálpa og gefa þér meðmæli um hvernig á að ferðast á milli staða, hvaða veitingastaðir eru góðir í hverfinu og fleira.
#4 – Þar sem þetta eru ekki hótel er venjulega engin önnur þjónusta innifalin. Þrif á íbúðum er yfirleitt innifalið í verðinu svo þú þarf ekki að þrífa sjálf/ur.
#5 – Eitt það mikilvægasta er að skoða athugasemdir og einkunnargjöf íbúða (rétt eins og með hótel) – Þar sérðu svart á hvítu frá öðrum gestum hvernig íbúðin er í raun og veru, upplýsingar um staðsetningu og hvernig samskipti við eiganda hafa verið.


Hvernig er veðrið?

Kanarí Eyjar

Auðvitað! Þetta á náttúrulega bara að vera efst í þessu íslenska bloggi en samt gleymdi ég þessu næstum því. Fyrir sólar og hitaelskandi íslendinga skiptir þetta rosalega miklu máli og ég hugsa að 9 af hverjum 10 ferðum okkar íslendinga séu til sólarlanda – og það er líka ótrúlega skiljanlegt!

Venjulega er þetta annar faktor sem ég skoða alltaf – Áður en ég bóka flug. Ef ég er að skoða og líst vel á flug til Morokkó til dæmis og í Janúar, þá passa ég mig að leita á Google að “Average weather in Morcco in January”. Ath. að í stærri löndum (Morocco, USA og óteljandi fleiri) þarf að leita að viðkomandi borgum eða landsvæðum til að fá betri hugmynd um veðrið þar sem veðrið getur að sjálfsögðu verið öðruvísi á austur og vesturströnd Bandaríkjanna til dæmis.

Oftast koma upp svör frá veðursíðunni Holiday Weather og það er sú síða sem ég hef notað mest hingað til. Ég ætla því að mæla með henni hér. Linkur á síðuna hér.

Mér finnst það skipta ótrúlega miklu máli að skoða veðrið áður en ég bóka til þess að sjá hvernig ástæður koma líklegast til með að vera í fríinu. Fyrir mörgum árum notaði ég þetta til þess að skoða hvort það væri eitthvað vit í því að bóka sólarlandaferð til Spánar í Október, í fyrra notaði ég þetta til að sjá hvort það er heitt í Morokkó á veturna og sömuleiðis er þetta mikilvægt til þess að forðast regntímabil eða annað sem menn eru síður að nenna í fríinu sínu.


Hvað á að gera í fríinu?

Sahara í Morkkó

Núna er komið að því allra skemmtilegasta finnst mér! Hvað ætla ég að gera í fríinu mínu? Hverju má ég gjörsamlega ekki missa af og hverjir eru mest spennandi veitingastaðirnir / barirnir eða túrarnir í boði og svo framvegis.

Oft er ég með ákveðnar hugmyndir fyrir því sem ég vil gera í hverju fríi en venjulega – og sérstaklega ef ég er að fara eitthvað framandi eða á staði sem ég hef ekki heimsótt áður þá byrja ég á því að gúggla eins og vitleysingur. Og þar sem ég er að skrifa þetta í flugvél á leiðinni til Boston þá tökum við Boston sem dæmi.

Ég byrja leitina yfirleitt mjög vítt á Google og Pinterest – Og ef ég þekki staðinn ekki mikið leita ég meðal annars fyrst að “Things to do in Boston”,Must do things in Boston” eða eitthvað í þeim dúr. En síðan þar sem ég hef gaman að því að ferðast í kringum mat leita ég líka mikið að spennandi veitingastöðum og börum auk þess sem ég skoða þá túra sem eru í boði. Til dæmis reyni ég alltaf að fara í matartúr eða Bar Crawl þegar ég ferðast. Bæði af því að það er svo skemmtilegt en líka til þess að fá hugmyndir fyrir Wake Up Reykjavik.

Fyrir þessa ferð hjá okkur Tönju leitaði ég fyrst og fremst að veitingastöðum og öðruvísi börum vegna þess að það er eitthvað sem Boston er þekkt fyrir. Sömuleiðis leitaði ég að spennandi hverfum til þess að labba um og taka myndir í. Og vegna þess að við erum Íslendingar, þá skoðaði ég hvar er gott að versla.

En fyrir meira framandi eða lengri ferðir eins og til dæmis fyrir síðasta fríið okkar til Morokkó þá leitaði ég rosalega lengi að mest spennandi stöðunum til þess að heimsækja í þessu stóra landi. Hvað er það sem þessi áfangastaður er þekktur fyrir? Hvert er ég tilbúinn að ferðast innan Morokkó? Hvað get ég gert í Morokkó sem ég get gert hvergi annarsstaðar? Hvenig er best að ferðast um, á ég að leigja mér bíl, taka rútu eða fá mér prívat ökumann? Og svona gæti ég lengi talið.


Þetta eru þær upplýsingaveitur sem ég nota lang mest:

#1 – Google, auðvitað. Þú getur leitað að nákvæmlega öllu og fundið svarið er þar.
# 2 – Ferðablogg. Bæði bloggarar sem ég þekki til og fylgist með en oftast bara aðrir ferðamenn sem hafa ferðast á viðkomandi stað og hafa deilt reynslu sinni. Það er oftast rosalega heiðarlegur og hjálpsamur vettvangur. Auk þess eru líka fullt af fyrirtækjum (eins og Wake Up Reykjavik til dæmis) sem blogga alveg á milljón um sinn heimabæ og deila allskonar hjálplegum upplýsingum.
#3 – Trip Advisor. Mér finnst ótrúlega gott að skoða Trip Advisor fyrst til þess að fá smá hugmynd um það sem er vinsælt að gera. Ég nota það aðallega til þess að finna bestu fyrirtækin ef ég ætla að fara í túra en líka til að fá hugmyndir að veitingastöðum. Ég nota samt venjulega ekki Trip Advisor eingöngu til að skoða veitingastaði.
#4 – Instagram og Pinterest! Ég er tiltölulega glænýr notandi á Pinterest en Instagram hef ég alltaf notað mikið. Þetta geri ég aðallega til að fá sniðugar hugmyndir að fallegum stöðum til að heimsækja eða bæta í ferðalagið og til þess að finna fallega áfangastaði.


Að lokum …

Vá! Viðurkenni óspart að ég ætlaði að splæsa í enska færslu hér beint fyrir neðan en þessi litli póstur varð svo mikil langloka að það verður að bíða betri tíma.

Ég fæ rosalega oft spurningar um það hvernig ég og Tanja skipuleggjum ferðalögin okkar og ég vona innilega að þetta geti aðstoðað einhverja við að plana einhverja algjöra veislu! Sömuleiðis ef það er eitthvað sem ykkur finnst vanta í færsluna eða ef það eru einhverjar spurningar sem poppa upp, ekki hika við að kommenta hér fyrir neðan eða senda mér línu og ég mun rosalega glaður hjálpa!

Takk fyrir að lesa!

Comments

comments

shares