TOPP 10 uppáhalds á Vestfjörðum

Hey hey elsku vinir,

Þá vorum við Tanja að renna í hlaðið heima í miðbæ Reykjavíkur eftir alveg hreint út sagt ÆÐISLEGA daga á fallegu Vestfjörðum. Hátt í 20.000 fylgdust með ævintýrinu okkar daglega í gegnum Instagram story og akkúrat núna er ég með alltof margar spurningar í inboxxinu mínu til þess að svara öllum eins vel og ég vil. Svo það er fullt tilefni til þess að deila því með ykkur hérna strax – Topp 10, uppáhalds stöðunum okkar á Vestfjörðum!

 

–      Ef þú hefur ekki verið að fylgjast með okkur á Instagram,      – 
þá vista ég Vestfjarðasögurnar okkar undir ‘story highlights’ á Instagram
og þú getur ennþá séð sögurnar okkar hér á @egillhalldorsson

Fyrst …

Aðeins um Vestfirði & ferðina okkar

 

Vestfirðir, Ísland Egill Halldórsson

 

Vestfirðir eru langt út fyrir alfaraleið … sérstaklega ef þú átt fjölskyldur á Akureyri (ég) og Neskaupssetað (Tanja) og þess vegna hafði hvorugt okkar heimsótt þessa perlu í næstum því 10 ár! En eftir þessa ferð á ég ansi erfitt með að segja ekki að þetta sé fallegasti hluti landsins, guð hvað við skemmtum okkur vel.

Vegna þess að Vestfirðir eru töluvert langt frá Reykjavík og það tekur langan tíma að keyra alla firðina þá vildum við gefa okkur nægan tíma. Við lögðum á stað núna á Laugardaginn síðasta (26. maí) og vorum með rosalega lausa dagskrá. Í grófum dráttum ætluðum við bara að koma heim þegar við vorum búin að fá nóg og við vorum ekki búin að plana nákvæmlega hvað við vildum sjá eða hvar við ætluðum að gista. Svo við lögðum af stað í mjög skemmtilega óvissuferð með ekkert planað nema nokkrar stjörnur á Google Maps.

Ævintýrið endaði á að vera fjórar nætur fimm dagar og það gerði ferðina okkar alveg að við leigðum okkur VW Camper Van frá Lagoon Car rental. Það var algjörlega next level að geta tjaldað hvar og hvenær sem er, að vera með nægt pláss og að geta sofið í næs rúmi. Það sem mig langar líka að taka fram áður en ég byrja á listanum er að Vestfirðirnir einir og sér eru alveg æðislegir. Það eru ekki bara þessar perlur sem ég ætla að telja upp hérna fyrir neðan. Það sem stendur mest uppúr er að keyra um firðina, sjá fjöllin, fossanna og vera í náttúrunni. Síðast en ekki síst -> Þá fannst okkur GEGGJAÐ að fara svona snemma árs. Það var klárlega aðeins kaldara en verður í júlí en á móti var enginn á ferli – og nánast hvert sem við fórum vorum við ein í heiminum …

 

Topp 10 uppáhalds
Vestfirðir, Ísland

 

ath. Þetta er listinn minn í réttri röð og ekki endilega út frá því hvaða staðir eru áhugaverðastir, heldur út frá því hvaða augnablik eru best eða eftirminnilegust hjá mér/okkur. & að sjálfsögðu eru þessir 10 hlutir bara brotabrot af öllu sem við gerðum 🙂

#10 – Vöfflur í Simbahöllinni

Í fyrsta lagi, nafnið er svo öðruvísi að þú bara verður að kíkja! Simbahöllin er gamalt og ótrúlega fallegt kaffihús á Þingeyri þar sem tvær æðislegar stúlkur tóku á móti okkur. Vöfflurnar voru krispý og dálítið öðruvísi en maður er vanur og upplifunin fannst mér vera alveg geggjuð. Mikilvægt stopp á leiðinni til Ísafjarðar.

Vöfflur og Kaffi á Simbahöllinni

Simbahöllin Þingeyri Vöfflur Egill Halldórsson

#9 – Gamla Bakaríið á Ísafirði

Góður vinur minn, king (Há)kong er frá Ísafirði og á heiðurinn af mörgum af eftirlætis minningunum mínum frá Vestfjörðum. Hann settist niður með mér áður en við lögðum af stað og mælti með hinu og þessu fyrir okkur að gera. En hann lagði meiri áherslu á þetta en allt annað … við ÞYRFTUM að heimsækja Gamla Bakaríið á Ísafirði (besta bakarí landsins að hans sögn) og fá okkur kringlu og kókoslengju.

Bakaríið er eitt krúttlegasta og er stofnað árið 1871, elsta fyrirtæki Vestfjarðar og næst-elsta bakarí landsins. Það var mjög gaman að koma í bakarí þar sem okkur fannst allt vera ‘original’ en ekki eins og oftast hér fyrir sunnan, að maður sér nánast allt það sama í öllum bakaríum.

Gamla Bakaríið á Ísafirði Egill Halldórsson

#8 – Tjöruhúsið

Enn á Ísafirði … eitt algjörlega æðislegt veitingahús. Mögulega eitt flottasta á Íslandi.

Mér þykir geggjað gaman að pæla í því að oft er rosalega þunn lína á milli þess hvort eitthvað hittir algjörlega í mark og slær í gegn – eða er bara alveg ógeðslegt. Það eru skrítin orð til þess að byrja jákvæða gagnrýni á Tjöruhúsinu Ísafirði en ég elskaði þetta veitingahús. Húsið er sem sagt eld, eld gamalt bjálkahús og er rosalega hrátt. Og mér finnst eins og útlitið á því gæti auðveldlega verið túlkað sóðalegt eða ekki fínt – en eigendurnir láta þetta virka fullkomlega og það er eiginlega svolítið eins og maður sé að ganga 100 ár aftur í tímann, inn í einhvern víkingakofa þar sem besta, ferskasta veiði dagsins er í boði.

Tjöruhúsið var mjög falleg og sérstök upplifun. Þar er fiskihlaðborð og í boði er fiskisúpa dagsins, nægt af meðlæti og svo eru kokkarnri að þruma fram pönnu á eftir pönnu (allt með mismunandi fiskum, framleiddir á mismunandi hátt) á meðan gestir fara bara í röð og gúffa í sig góðgætinu og fara eins margar ferðir og þeir vilja. Við smökkuðum alveg heilan helling og meðal annars stendur upp úr rjómalagaður Steinbítur með karamelluðum bönunum (???).

Smáa letrið: Hlaðborðið kostar 6.000 á mann. Mér finnst það fullgróft vegna þess að ambiancinn á staðnum er svo allt annar en þetta dýra eða fancy umhverfi. En með einföldum samanburði er það auðvitað nákvæmlega eins og veitingahús í Reykjavík eru að rukka og ég gat fengið mér á diskinn eins oft og ég vildi. Tjöruhúsið er auk þess örugglega alltaf svo vinsælt að þeir geta leyft sér að rukka fyrir þessa upplifun sem heimsókn á staðinn er – vegna þess að það er þess virði. 

Tjöruhúsið Ísafirði Egill Halldórsson

Tjöruhúsið Ísafirði Egill Halldórsson

#7 – Krosslaug

Alveg mögnuð náttúrulaug í vatnsfirði sem ég sá fyrst hjá queen Ásu Steinars. Laugin minnti mig strax svolítið á Hrunalaug en bara stærri … og mögulega enn flottari. Um leið og við settumst í laugina hugsaði ég með mér að þetta væri ein af mínum uppáhalds.

Krosslaug er stór og góð, hitastigið var fullkomið þegar við vorum þar, útsýnið magnað og svo er hægt að stökkva út í sjóinn ef þú þarft að kæla þig! Við heimsóttum Krosslaug fyrsta kvöldið okkar og fengum okkur nokkra kalda með pari frá Frakklandi.

Krosslaug Vestfirðir Tanja og Egill

Egill Halldórsson Krosslaug Vestfirðir

#6 – Sundlaugin Birkimel

Rosalega kúl, gömul og líklegast yfirgefin sundlaug á Barðaströnd. Við sundlaugina er lítil “náttúrulaug” og báðar laugarnar eru með geggjuðu útsýni (eins og allt á Vestfjörðum!) yfir hafið og fjöllin.

Klukkan var orðin töluvert margt fyrsta daginn okkar þegar við fundum sveitabæ sem Tanja hafi verið á eitt sumar þegar hún var lítil og við vildum heimsækja hann daginn eftir. Svo til þess að keyra ekki of langt í burtu stoppuðum við camperinn við þessa fallegu laug sem er skammt undan og áttum æðislega stund þar um morguninn. Við byrjuðum daginn á því að hoppa út í og vorum þar í örugglega tvo klukkutíma áður en við höfðum okkur í það að heimsækja bæinn og halda síðan af stað.

Sundlaug Birkimel Vestfjörðum

#5 – Heydalur … náttúrulaugar, matur & ég veit ekki hvað!

Heydalur er alveg geggjaður. Og hann er að miklum hluta ástæðan fyrir þessari færslu.

Heydalur er sem sagt alveg rosalega fallegur sveitabær í Mjóafirði og bjóða þau upp á allskonar flotta ferðaþjónustu. Við Tanja vorum meira að segja að furða okkur á því hvernig þetta fólk fór að því að gera þetta allt svona vel. Þau voru með tvær laugar á staðnum sem voru vægast sagt rooosalegar, maturinn var æðislegur (og á sanngjörnuverði – ódýrara en nánast allstaðar annarsstaðar) og þar voru líka fullt af dýrum og afreyingu í boði eins og hestaferðir, kajakferðir og fleira.

… ég hef líka heyrt að þar séu stundum refir sem gæludýr en við sáum enga akkúrat þegar við vorum.

Heydalur á skilið allt pepp í heimi en helst vildi ég tala um laugarnar sem við böðuðum okkur í í einhverjar klukkutíma. Það er annars vegar geggjuð útilaug með útsýni yfir fjörðinn en síðan þessi rosalega öðruvísi og “tropical” innilaug sem er byggð í gömlu fjósi sem í dag er eins og hálfgert gróðurhús. Vává!

Það var þessi staður sem gjörsamlega sprengdi inboxið hjá bæði mér og Tönju svo vonandi að þetta hjálpi sem flestum! Ég mæli ekki bara með þessum stað heldur vona ég líka að sem flestir fari til þess að styðja við reksturinn hjá þeim í Heydal. Þvílíka paradísin!

A post shared by Tanja Ýr 💃 (@tanjayra) on

Mynd frá Tönju á Instagram.

 

#4 – Dynjandi

Það er ekki hægt að sleppa einum fallegasta fossi landsins.

Dynjandi er rosalegur og það er mjög skemmtilegt að ganga alla leið upp að honum. Við Tanja vorum búin að ímynda okkur að hér ætluðum við að tjalda aðra nóttina okkar og vorum búin að heyra að beint fyrir framan Dynjanda væri frábært tjaldsvæði. En þegar við mættum sáum við að tjaldsvæðið var lokað og framkvæmdir voru á svæðinu.

Klukkan var orðin svo margt að við ákváðum að keyra bara aðeins innar í fjörðinn og “tjölduðum” þar, ennþá með æðislegu útsýni yfir fossinn … ég tók síðan ekki eftir því fyrr en við vorum að ganga frá næsta dag að þarna var víst alveg stranglega bannað að gista en skiltið hafði dottið um koll og lá falið í grasinu.

Sem betur fer samt, vegna þess að þetta var eitt af bestu augnablikunum okkar í ferðinni. Við grilluðum og spiluðum við eldinn langt fram á nótt með Dynjanda fyrir framan okkur og byrjuðum næsta dag á því að ná í vatn í læknum til þess að elda okkur morgunmat og ganga síðan upp að fossinum. Geggjað.

Dynjandi á Vestfjörðum Egill Halldórsson

Dynjandi tjaldsvæði Vestfirðir

#3 – Látrabjarg

Líklegast þekktasta kennileiti Vestfjarða stóð algjörlega undir væntingum. Í fyrsta lagi þá er Látrabjarg leeeeeeengst úti í rassgati (nánar, hér) og daginn sem við ætluðum að skoða Látrabjarg og Rauðasand leið mér bara eins og við værum að keyra í hringi. Google Maps sýndi okkur að það væru örfáir kílómetrar á milli áfangastaða en maður er heila eilífð að keyra inn og út firðina á gömlu malarvegunum (ekki misskilja, samt æðislegt!).

Látrabjarg er vestasti (ætli það sé orð??) punktur landsins og á landakorti er næstum því eins og maður sé bara kominn til grænlands. Bjargið sjálft er óóótrúlega fallegt en það sem gerði þetta svo ótrúlegt fyrir okkur var í raun tvennt annað …

  1. Við sáum fullt, fullt af lundum!
  2. Við sáum 4 eða 5 refi (arctic fox)!

Sjálfur hafði ég aldrei séð ref áður með berum augum og langaði rosalega að gera það en bjóst svo sannarlega ekki við að vera svo heppinn. En um leið og við mættum að Látrabjargi og stigum út úr bílnum kom risa refur vappandi á móti okkur og skaust síðan inn í einhverja holu. Skömmu seinna sáum við annan koma á eftir honum og áður en við fórum sáum við fleiri refi að leika sér … og borða lunda (myndaband á Instagram story). Þetta var alveg sturlað og maður vissi ekki alveg hvort maður átti að vera skíthræddur eða hlaupa til þeirra og reyna sníkja knús.

Látrabjarg Egill Halldorsson

Refur á Látrabjargi Vestfjörðum

Lundi Látrabjarg Vestfirðir

#2 – Hörgshlíðarlaug

Jæja … nú erum við farin að tala um allra uppáhalds mómentin mín. Og ennþá finnst mér eins og allt sem við vorum að gera sé bannað. En í þetta skiptið nýttum við okkur það hvað bíllinn okkar var frábær og að við gátum gist hvar og hvenær sem er.

Við stoppuðum bílinn okkar við ótrúlega fallegu litlu Hörgshlíðarlaug í Mjóafirði þar sem við sátum í nokkra klukkutíma og grilluðum og drukkum bjór. Svo færðum við okkur í laugina og nutum þess að vera í náttúrunni – og þetta kvöld fengum við líka besta veðrið í ferðinni. Samanlagt var þetta kvöld eitt fullkomnasta og þessi staður alveg magnaður.

Mjóifjörður Vestfirðir

Hörgshlíðarlaug Vestfirðir

#1 – Heimsókn á Litla Bæ

Það hljómar kannski alveg hræðilega ef eitt uppáhalds augnablikið mitt frá ferðinni var eina skiptið þar sem ég skildi Tönju eftir sofandi í bílnum og skaust einn í burtu … en á leiðinni frá Ísafirði og að Heydal rakst ég á þennan bæ við veginn.

Litli Bær er pínulítill torfbær sem var reistur 1895 (eigandinn sagði mér að hann telji bæinn vera um 40 árum eldri þó engar heimildir séu fyrir því) og þar reka gömul hjón í dag kaffihús á sumrin. Ég mæli alveg eindregið með því að allir sem eiga þarna leið hjá stoppi og fái sér kaffi og vöfflur – þetta er æðislegt að sjá en helst langaði mig bara að styðja reksturinn þeirra.

Bærinn er í alveg fáránlega flottu ásigkomulagi en hjónin sögðu mér að þau hafi nýlega selt hann til Þjóðminjasafnsins sem hjálpi þeim að halda honum við. Það var hreinlega upplifun að koma inn í þetta fallega hús og vöfflurnar + kaffið voru eins heimilislegar og mögulegt er. Ég mæli hiklaust með heimsókn! Ég sat þarna í örugglega klukkustund og spjallaði við þau, borðaði vöfflur og gluggaði í gamlar bækur.

ath. Hjónin bentu mér síðan á að það eru nánast alltaf selir við ströndina beint fyrir neðan bæinn og sáum við Tanja fimm litla gæja að veiða og tjílla. 

Litli Bær Vestfirðir

Kaffi og Vöfflur á Litla Bæ, Vestfjörðum

 


 

Ókei, ókei!

Ef það er eitthvað sem ég get bara ekki gert þá er það að skrifa stutta pósta haha! En ég reyndi að hafa þetta eins hnitmiðað og ég gat en samt segja aðeins frá ferðinni okkar í leiðinni. 

Ég mæli alveg endalaust með því að þú farir í Vestfjarðarævintýri og ef ég tek sérstaklega tilliti til þess að það var nánast aldrei neinn á ferli í kringum okkur þá mæli ég eiginlega meira með Vestfjörðunum akkúrat núna en nokkrum öðrum landshluta. Það er bara mikilvægt að gefa sér nægan tíma, ég hefði til dæmis ekki viljað hafa minni tíma en þessa fjórar nætur sem við áttum.

Vonandi getur þú farið og notið allra þessara gersema en ef þú ert með takmarkaðan tíma þá verður þú að heimsækja Látrabjarg, Heydal og Litla Bæ 🙂

Ég vona innilega að þetta hjálpi ykkur sem eruð í Vestfjarðar-ævintýra-hugleiðindum, góða ferð!

 

Comments

comments

shares